Framtíð

Framtíð: máluð af Huldu Brynjólfsdóttur

Þegar við Tyrfingur byrjuðum búskap var kind á bænum númer 7002, fædd 2007.

Hún hét ekki neitt, en um haustið var hún með tvær fallegar dætur sem báðar voru settar á. Mér finnst kindur þurfa að hafa nafn og því var sest við að gefa öllum kindunum nafn. Þessi kind var nefnd Framtíð af því hún var með svo falleg lömb og dætur hennar Sól og Fiðla.

Framtíð var mögnuð kind. Hún átti alltaf tvö eða þrjú lömb sem skiluðu sér feikna væn af fjalli og oftast sett á til lífs. Dætur hennar eru líka magnaðar og Sól dóttir hennar á 7 dætur á lífi auk þess að vera lifandi sjálf 8 ára gömul og gengur nú með 3 lömb.

Framtíð var ekki mjög spök og vildi lítið tala við manninn, en róleg í húsi og fór lítið fyrir henni. Ekki að monta sig yfir því að vera besta kindin í húsinu.

Þegar hún var felld, ákvað ég að mála mynd af henni á fjárhúsvegginn til minningar og til fyrirmyndar fyrir hinar kindurnar,- svo segi ég þeim reglulega að svona eigi góðar kindur að vera. – Engin pressa.

Einn hrútur var settur á undan henni og sonur hans fékk blupverðlaun síðasta haust, sem eru gefin fyrir hæstu blupeinkunn á okkar svæði – Rangárvallasýslu. Hann var þar í 3. sæti. Sá hét Stimpill.

Í dag eru flestar okkar kindur á einn eða annan hátt komnar út af Framtíð.

<aftur

<upphaf>