Karfa
Ég vil kynna ykkur fyrir Þjóðhildi

Þjóðhildur er fædd 2015. Mamma hennar hét Drottning og pabbi hennar Köggull. Köggull var undan Spotta (sem var á sæðingarstöð - til upplýsinga fyrir sauðfjárnörda) �� Þjóðhildur er fædd þrílembingur, en var með einni systur sinni undir Drottningu í 1 og hálfan mánuð. Þá drapst Drottning og þær systur gengu móðurlausar það sem eftir var sumars. Báðar voru settar á og fékk hin nafnið Ráðhildur.

Þjóðhildur er svargolsótt á litinn, en þá er hún gulleit að ofan og svört á andliti og neðan á bol og fótum. Hún átti þrjú lömb 2021 og eru öll með henni og öll eru jafnstór sem segir mér að hún mjólkar mjög vel.

Lömbin sem hún hefur átt hingað til hafa verið falleg og þroskast vel.

Í sumar (2021) höfum við verið með beitarstýringu, þar sem við færum kindur og lömb á milli hólfa einu sinni til tvisvar á dag. Þjóðhildur er undantekningarlaust fyrst í gegn þegar opnað er á milli hólfa. Ef ég kem í hópinn, þá er hún umsvifalaust komin nálægt mér og bíður eftir að ég opni. Ef ég opna ekki strax eða er með korn í fötu, þá eltir hún mig í ákveðinni fjarlægð og fylgist með hvað ég er að gera. Þiggur korn en alls ekki að koma of nálægt.

Þegar ég færi á milli beitarhólfa, þá bíður hún við hlið mér á meðan ég opna og síðan gengur hún rólega í gegn með þrílembingana sér við hlið og hjörðin eltir hana umsvifalaust. Einu sinni opnaði ég hliðið öðru vísi en venjulega og hún lenti á milli mín og hliðsins. Hún stoppaði, horfði á mig og gekk síðan rólega hringinn í kringum mig og í gegnum hliðið. Hjörðin fór ekki í gegn þó svo opið hliðið væri beint fyrir framan þær, þær horfðu bara á hliðið og Þjóðhildi og biðu eftir því að hún færi í gegn og síðan eltu þær.

Tæknilega séð er Þjóðhildur ekki forystukind, en eðli hennar til að leiða hóp er áberandi og hún er greinilega mjög skynsöm.

Það eru forréttindi að eiga kindur eins og Þjóðhildi og fá að vinna með henni daglega.

Share on facebook
Share on twitter
Share on email