Já, fimmtíu gráir skuggar. Íslenska sauðkindin hefur mun fleiri gráa tóna en fimmtíu. Ég held að möguleikarnir séu bara óteljandi og við getum ekki ábyrgst að sami grái tónninn náist í garnið þegar við reynum næst.
Málið með gráa ull, er að hún er ekki alltaf eins grá yfir alla skepnuna, já, ég meina á sömu kindinni. Hún getur verið með einum lit á bakinu, öðrum á síðunum og enn öðrum á lærunum og togið getur verið öðru vísi á litinn en þelið og þetta sést í garninu. Þegar við prjónum úr gráu garni koma stundum eins og öldur í litinn, jafnvel þegar við teljum okkur hafa náð jöfnum gráum lit í garnið. Þetta hefur svona listrænt útlit og mér finnst það reyndar mjög fallegt. En ef verið er að leita að jöfnum gráum lit sem aldrei breytir sér í flíkinni, þá er það ekki eins heppilegt. Þá veður fólk bara að horfa efitr öðrum lit... Það sama gerist þegar ég lita grátt garn. Það er með svona hreyfingu eins og ég kalla það. Mér finnst fátt skemmtilegra en að lita grátt garn. Af því það er svo lifandi. Það er laust við að hafa flatt útlit og að prjóna úr því er beinlínis spennandi því það er aldrei alveg öruggt hvar næsta alda birtist í flíkinni.
Grófasta ull sem ég hef fengið til vinnslu var grá, en einhver mýksta ull sem ég hef fengið til vinnslu var líka úr gráum lit. Þannig að breytileikinn í gæðum getur verið mikill. Í grárri ull má stundum finna illhærur, sem við viljum síður hafa í ull til garnvinnslu. Illhærur eru harðar, standa út í loftið í garni af því þær spinnast ekki almennilega og þær taka ekki lit. Stundum þegar togið er dregið frá þelinu fáum við sitt hvorn litinn á togið og þelið og stundum eru hár eftir í þelinu sem eru mýkri en togið en grófari en þelið. Þessi hár heita hærur (ekki illhærur heldur hærur). Þær spinnast með í garni og taka lit, en gefa stundum eins og geislabaug í prjónaða flík. Máltækið "að kemba hærurnar" er komið af því að þegar þessi hár voru tínd úr þá tók það dágóðan tíma og gat reynt á taugarnar og gert fólk gráhært ef það varð pirrað við verkið. Enda þýðir "að kemba hærurnar" að verða gráhærður.
Grátt garn er langvinsælast í búðinni hjá okkur og fjölbreytileikinn er líka mestur í gráum litum, þannig að það er ekki skrítið að það sé vinsælt. Það er líka gaman að nota það í munstur sem eyðist frá dökku yfir í ljóst eða ljósu yfir í dökkt.
Grátt gengur með öllum öðrum náttúrulegum litum ullarinnar. Og þegar ég lita grátt garn, þá fæ ég besta mögulega munsturlitinn til að hafa með gráu af því það harmónerar svo vel saman. Þessir litatónar tilheyra sömu fjölskyldu ef hægt er að orða það þannig og því eiga þeir fullkomlega saman. Einhvernveginn er svo skemmtileg dýpt sem næst í litun með gráu garni. Það verður hálf dulúðlegt og fólk verður oft hissa þegar ég sýni því garn sem er á litinn eins og fallegt rauðvín og segi þeim að liturinn sem ég notaði hafi verið jólarauður, en garnið dökkgrátt og því hafi þessi litur komið fram. Hljómar eins og töfrar, ekki satt?
Á Íslandi er bara eitt sauðfjárkyn, en við höfum samt það sem við köllum forystufé og svo höfum við feldfé. Feldfé er oftast grátt. Áður var það ræktað mest fyrir skinnin, en á 8. áratugnum var mjög vinsælt að nota feldgærur til að skreyta heimilin, sérstaklega á Norðurlöndunum, enda eru þær óskaplega fallegar. Þegar feldfé er hreinræktað eftir réttum reglum er ullin með liðaða lokka frá skinni út á hárenda og á hárunum er gljái sem skín eins og sólin í góðri birtu. Feldullin er nánast eingöngu tog og togið er mýkra en tog á "venjulegum" íslenskum kindum. Það er ekki margt hreinræktað feldfé á Íslandi, en áhuginn á að rækta það hefur aukist, sérstaklega hjá handverksfólki. Við erum svo heppin að það voru örfáir bændur sem héldu áfram að eiga feldfé þegar áhuginn á að fá svona gærur datt niður. Þannig að erfðaefnið er ennþá til og ég verð að viðurkenna að ég á nokkrar sjálf. Til að stytta langa sögu, þá er ullin allt öðruvísi. Það eru ekki bara lokkarnir frá skinni til hárenda sem gefa henni sérstöðu. Það er líka þessi gljái sem er svo sérstakur. En það er líka hálla en venjulega og það er stundum bras að spinna það út af því hversu sleypt það er. Þegar garnið er tilbúið sést gljáinn í garninu. Flest feldfé er grátt, en ég var einu sinni að spinna ull af hreinræktaðri svartri feldkind og sólin skein inn um gluggan þar sem garnið var að vindast upp á keilu. Ég man að ég hugsaði; "Bíddu, hvað er eiginlega í gangi? Er speglun á garninu eða er eitthvað saman við það?" En þá var það bara glansinn sem endurspeglaðist í sólinni og allt var fullkomlega náttúrulegt og ekta.
Á áttunda áratugnum þegar feldfjárgærurnar voru hvað vinsælastar þá var feldféð nánast eingöngu grátt, en í dag þegar við viljum prjóna úr ullinni af þeim, þá eru fleiri litir eftirsóknarverðir. Þannig að það eru komnar fram svartar og mórauðar og ég hef jafnvel heyrt af hvítri feldkind. Það gæti nú orðið ansi flott peysa úr því., ekki satt?
Ég á nokkrar gráar kindur og margar þeirra eru með eitthvað af feldfjárgenum og þær eru mjög ólíkar á litinn. Í þennan póst setti ég margar myndir. Stundum segja myndir meira en þúsund orð og mér datt í hug að það gæti verið gaman að leyfa þeim að vera með. Ég vona að það sé rétt hjá mér.
Nú er ég búin að fjalla um alla hreinu sauðaliti íslensku kindarinnar, en samt ekki... Það eru svo ótalmargir eftir. Allir flekkóttu litirnir, botnótt (golótt) golsóttu (mögótt, goltótt) og ... Já, ég verð að tala um þá líka held ég. En hér lýkur gráu umfjölluninni.