Karfa
Íslenska geitin

Landnámsmennirnir sem hingað komu í upphafi landnáms, tóku með sér þau dýr sem þeir töldu að væri gott að hafa til að byrja nýtt líf í óþekktu landi. Eina spendýrið sem hér var við landnám var refurinn. Landnámsmennirnir komu svo með hesta, kindur, kýr, hænur, svín, hunda, ketti og geitur. Seinna voru minkar fluttir til landsins og eins og stundum gerist, þá sluppu þeir úr búrum mannanna og lifa nú villtir í náttúru Íslands.

Geitin átti að framleiða mjólk og sagan segir að hún hafi verið talin kýr fátæka mannsins. Það þótti því ekki merkilegt að eiga geitur. Stundum eru þær líka til vandræða, því geitur eru sjálfstæðar og stundum gera þær það sem þeim sýnist en ekki endilega það sem er ætlast til af þeim. Þannig að ef íslenskir bændur höfðu efni á að eiga kú í staðinn fyrir geit, þá völdu þeir kúna.

Íslenska geitin var eitt sinn næstum því útdauð og um 1960 voru 62 geitur til í landinu. Mig langar að nefna Jóhönnu Bergmann Þorvaldsdóttur á Háafelli sérstaklega þegar ég segi að hún hafi farið í herferð til að bjarga geitastofninum. - Og tekist það. Það stendur í búfjárlögum okkar að við eigum að vernda búfjárstofna Íslands og koma í veg fyrir að geitin verði í útrýmingarhættu. Og það eru margir sem hafa ákveðið að halda nokkrar geitur til að vernda þær. Það eru samt fáir sem geta beinlýnis talist geitabændur, því einungis um 5 bændur eiga 50 geitur eða fleiri. En í lok árs voru til 1.620 geitur á landinu á 119 búum. Geitur eru því ennþá í útrýmingarhættu, en til að komast af válista þurfa að vera til 2.000 móðurdýr.

Íslenskar geitur eru kasmír-geitur. Þær eru það samt ekki erfðafræðilega séð í raun og veru, heldur hafa þær aðlagast að veðrinu (stöðugum vindi) hér á Íslandi og hafa þær þróað með sér undirvöxt á mjúkum einangrandi feldi sem ver þær fyrir veðri og vindum. Það sem af þeim kemur kallast fiða og úr því verður kasmírgarn þegar það er spunnið. Hversu frábært er það!

Til að ná fiðunni af geitum þarf að kemba þeim. Þær eru ekki rúnar eins og kindur. Til að kemba þarf sérstakan kamb og þeim er kembt á vorin þegar þær fara úr hárum og þá þykir þeim það þægilegt. Hver geit gefur mjög lítið af fiðu. Hámark um 300 grömm. Það er tímafrekt að kemba þeim og það þarf að hitta á rétta tímann til þess. Ef það er gert of snemma þá er allt fast og geitinni finnst það vont. Ef það er gert of seint er það allt orðið þæft og ekki hægt að vinna það í garn. Þannig að ef það á að nota fiðuna til vinnslu, þá verðum við að vera viðbúin þegar geitin er tilbúin.

Við höfum spunnið geitafiðu í Uppspuna frá því við byrjuðum haustið 2017. Það er mjög tímafrekt að spinna geitafiðuna og ég hef alltaf gert það úr 100% hreinu hráefni. En ég vissi óskaplega lítið um geitur almennt og langaði að læra meira. Mig langaði líka að taka þátt í að vernda íslenska geitastofninn. 

Þannig að haustið 2021 fékk ég mér 4 huðnur og 1 hafur til viðbótar við bústofn okkar. Síðasta vor (2022) kembdi ég mínum eigin geitum í allra fyrsta sinn og það kom mér á óvart hvað það var gaman. Þær nutu þess að láta kemba sér og þetta varð gæðastund hjá mér og geitunum, þar sem ég settist hjá þeim í nokkrar mínútur á dag, nokkra daga í röð og kembdi þeim frá hálsi og niður allan skrokk. Og í poka fékk ég þetta magnaða hráefni. Úr því gat ég svo gert garn. Og þvílíkt garn!!! Þetta er eitthvað allt annað. VÁ! Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því, það verður að snerta. Og það er alltaf jafn gaman þegar ég er með kynningar, að sjá svipinn á fólkinu þegar ég rétti því geitafiðu eða kasmírgarn og leyfi því að snerta. :-)             

Nú þegar ég átti loksins svolítið af geitafiðu sjálf, þá langaði mig að gera tilraunir. Ég átti reyfi af gráu lambi sem var óvenjulega mjúkt. Ég setti það tvisvar sinnum í gegnum hárskiljuna og hreinsaði þannig burt meira af toginu og var með nánast bara undurmjúkt lambsþel. Ég blandaði því við geitafiðuna. 10% ull á móti 90% geitafiðu og svo 20% ull á móti 80% geitafiðu og það kom mjög vel út. Það er mjúkt og yndislegt og það kemur ekki niður á gæðum fiðunnar að blanda það með þessu magni af ull. Og stærsti kosturinn var að við getum spunnið það beint á eftir ullinni, en þurfum ekki að breyta vélunum eins og við gerum þegar við spinnum hreina geitafiðu. Spuninn gekk líka miklu betur og því gekk það hraðar í gegn. Þannig að 10 eða 20% ull saman við gefur yndislegt garn og það gleður mig mjög að það skuli einfalda spunann. Ég gerði síðan eina tilraun með fiðu frá einum bónda með hennar samþykki og setti 30% ull saman við af gráa lambinu. En þá fann ég að það var ull saman við. Þannig að mín niðurstaða er að 10 eða 20% skiptir ekki máli varðandi gæði og einfaldar vinnsluna mikið.

 

Það er stundum hægt að fá þrjá ólíka liti úr kasmírgarni, en oftast eru þeir einn eða tveir. Að blanda ull saman við myndi fjölga litamöguleikunum.

Ég hef prófað að lita garnið og það tekur lit mjög vel. Að prjóna úr því er líka mjög skemmtilegt. Það er svolítið sleipt og laust í sér, en gerir geggjaðar prjónaflíkur. Uppspuni er eina spunaverksmiðjan á Íslandi sem vinnur úr íslenskri geitafiðu og við gerum það frekar fínt. 100 metrar eru u.þ.b. 25 grömm sem er kallað fingering á ensku. Ein slík hespa dugar í úlnliðsstúkur eða sokkapar á ungabarn. Stundum dugar hespan í bæði hosur og vettlinga á ungabarn.

Það er lítið magn til af kasmírgarni hjá mér og það fæst ekki í netsölunni. En það er hægt að senda mér póst á huldauppspuni@gmail.com og panta það þar persónulega af mér. Ég mæli svo sannarlega með því að nota það í eitthvað alveg einstakt sem þig langar að búa til.

Eins og ég sagði; Það er engu öðru líkt!

Share on facebook
Share on twitter
Share on email