Á Íslandi er mýrarrauði í öllum mýrum og flestum skurðum. Hann litar allt sem snertir hann rauðbrúnum litum og það er ekki alltaf einfalt að ná litnum úr.
Mýrarrauði er steinefni (Fe2O3 ), sem er í jarðvegi. Það er frekar þungt og ríkt af járni (70%) og fram á 15. öld unnu íslenskir bændur járn úr mýrarrauða með svokölluðum "Rauðablæstri" og gerðu úr því verkfæri og vopn á landnámstíma. Ég fer ekki lengra inn í þá sálma hér, en hægt er að finna fróðlegar greinar á alnetinu um þetta. (https://ferlir.is/raudablastur-myrarraudi/)
Mýrarrauða má finna í flestum skurðum hér á landi og líka í mýrunum, enda kenndur við þær. Mýrar eru afskaplega blautt graslendi og fari maður í göngu yfir slíkt land er betra að vera í stígvélum. Annars er hætta á að sokkar, skór og fætur litist rauðbrúnir. Grasið í þessum mýrum er hins vegar oft á tíðum mjög gómsætt fyrir kindur og önnur dýr og stundum má sjá hesta standa á kafi upp að hnjám í mýri og moka í sig grasinu sem vex í miðri mýrinni.
Þegar skurðir byrja að gróa upp og fyllast smátt og smátt af grasi, þannig að botninn virðist öruggur, verða þeir varasamir fyrir búfé. Dýrin langar að fá sér gómsætan bita í skurðinum og fara ofan í, en komast svo ekki alltaf hjálparlaust upp úr aftur. Að hjálpa þeim uppúr er heldur ekki létt verk, sérstaklega við kindur. Þær verða svo þungar, því þykk og mikil ullin fyllist af vatni sem þyngir þær og blautur jarðvegurinn sogar fæturna niður og veitir enga viðspyrnu fyrir þær til að ýta sér upp sjálfar.
Þessu lambi var hjálpað uppúr skurði að hausti og varð rauðbrúnt upp á miðjar síður.
Þessi litur næst ekki auðveldlega úr ull og stundum bara alls ekki. Stundum er þetta mjög fallegur litur og tónar vel við ullina, en oftast er ullin bara ónýt og það þarf að henda henni.
Nú er ég ekki hrifin af því að henda. Er með þessa svokölluðu "Förgunarfælni". Svo ég ákvað nú í vetur að taka til hliðar alla þá ull sem var menguð af mýrarrauða og spinna hana sér. Einhverra hluta vegna var meira af mýrarrauða í ull hjá mér þetta haustið en oft áður. En hér má sjá hver árangurinn af þessari tilraun varð.
Þessi ull var öll þakin mýrarrauða, en oftast er það eingöngu hluti ullarinnar sem smitast. Læraullin, kviðullin og þar í kring verður lituð. Eftir þvott, tætingu og kembingu var kominn jafn litur yfir alla ullina og liturinn orðinn nokkuð ólíkur ull af kind sem ekki hafði farið í mýrarrauðabað. Þessi gulrauði litur hafði blandast við hvíta litinn og búið til lit sem er svolítið beis eða gullinn.
Í rauninni er þetta hvoru tveggja hvít ull. En sú gulleita er menguð af mýrarrauða. Nokkuð skemmtilegur litur sem er að verða til þarna.
Hér renna lyppurnar í gegnum dráttarvélina. Ég setti hreinhvíta lyppu við hliðina á hinum til að sýna litaskiptin, rétt á meðan ég tók mynd.
Þá er garnið tilbúið. Hreinhvít til hægri, mýrarrauðinn til vinstri.
Peysan sem garnið liggur ofan á er prjónuð úr öðrum skammti af mýrarrauðagarni sem ég gerði fyrr í vetur. Það garn hefur mun ljósari lit, enda var meira af hvítu í þeirri ull og minna af mýrarrauða. Því blandaðist liturinn í ljósari tón þar.
Þetta kemur virkilega vel út í prjónaðri flík. Ég held líka að dekkri hespan yrði flottur munsturlitur með mórauðu.
Við erum búin að þvo hespurnar og peysuna, en liturinn heldur alveg. Hann lýsist ekkert í þvotti. Allavega ekki strax, hvað svo sem gæti gerst með tímanum og fleiri þvottaferðum. En svo þarf yfirleitt ekki að þvo ullarfatnað oft eða mikið.
Það er örlítið önnur áferð á garninu með mýrarrauðanum. Það er mjúkt, en samt eins og það sé örlítið harðara en annars, en það finnst ekki í peysunni. Hún er alveg eins og aðrar peysur úr Huldubandi. Fólk sem er lyktnæmt getur fundið örlítinn keim af járni þegar þefað er af ullinni en ekki í garninu.
Þarna erum við komin með ull sem oftast er hent af því liturinn hentar ekki. Spunnin í garn. Prjónuð í peysu. Tilbúin til að klæðast.
Og verðlaus ullin er einhvers virði. Það er svo sannarlega eitthvað að stefna að.
Ég tók sjálf myndirnar í greininni. En forsíðumyndina fann ég á netinu. Hana tók Harpa Hreinsdóttir sem er kennari. Kærar þakkir Harpa fyrir að leyfa mér að nota myndina.