Tengdafaðir minn lést 14. janúar 2025.
Hann var á margan hátt alveg magnaður einstaklingur, en hér ætla ég eingöngu að fjalla um hvern þátt hann hafði í starfi okkar í Uppspuna.
Sveinn var maður athafna og ánægður ef hann hafði nóg fyrir stafni, en leiddist heldur ef það voru engin verkefni framundan eða eitthvað sem þurfti að framkvæma eða starfa við. Það var honum frekar erfitt þegar hann eltist og þurfti að hægja á sér og verkefnin urðu færri en þau höfðu verið á búskaparárum hans. Þetta á sjálfsagt við um flesta þá sem eldast og þurfa að láta af sínu "hefðbundna" starfi. Þá er mikilvægt að finna eitthvað til að stytta sér stundir við. Eitthvað sem vekur ánægju, hefur tilgang og skilur jafnvel eitthvað nýtilegt eftir sig.
Sveinn var svo heppinn að það var trérennibekkur til á bænum sem var lítið notaður. Hafði reyndar legið óhreyfður í mörg ár, en þurfti ekki mikið til að hrökkva í gang og nýtast bærilega. Það var Sveini mikið gleðiefni að finna þennan rennibekk og koma honum aftur til starfa. Hann fór á stutt námskeið, fræddist hjá þeim sem höfðu prófað svona, horfði á vídeó og byrjaði svo að æfa sig sjálfur. Til að gera langa sögu stutta, þá voru ómældar stundir sem Sveinn átti í bílskúrnum með rennibekknum. Hann dvaldi í skúrnum frá morgni til kvölds og vann við rennibekkinn í þó nokkur ár. Eldsnemma á morgnana var rennibekkurinn byrjaður að suða, stoppaði örstutt í hádeginu og svo var hann kominn aftur í gang. Sveinn nýtti afgangstimbur frá smiðum, stundum fann hann harðvið í viðarstöflum,- stubbarnir þurftu ekki að vera stórir, hann gat gert eitthvað úr þeim. Svo nýtti hann tré sem hann þurfti að grisja í garðinum eða skjólbeltum á jörðinni. Stundum voru honum gefnir viðarbútar úr gæðaviði eða tré úr görðum vina sem voru að grisja heima hjá sér.
Rykugur og brosandi bjó Sveinn til nytjahluti úr timbri, pússaði og bar á þá og gaf síðan vinum og ættingjum eða seldi þá ef einhver vildi borga fyrir gripinn.
Skömmu eftir að Sveinn byrjaði að nota rennibekkinn spurði ég hann hvort hann gæti gert fyrir mig tröllaprjóna sem mætti nota fyrir Tröllabandið. Ég man þetta svo vel. Klukkan var um hálf tíu að morgni á virkum degi. Ég var í Uppspuna og útskýrði fyrir honum hvað ég væri að hugsa. Þetta átti að vera hringprjónn, 25 mm og vera vel slípaður svo garnið festist ekki við hann þegar prjónað væri með honum.
Klukkan 12:35 kom fyrsta sýnishornið.
Eftir örfáar lagfæringar vorum við sátt við útkomuna og hann byrjaði að gera svona prjóna. Í þremur stærðum; 16 mm, 20 mm og 25 mm. Snúran í miðjunni var skiptanleg, þannig að hægt var að prjóna mis stóra hluti með prjónunum. Snúran var nú bara keypt í byggingarvöruverslun og ætluð fyrir vatn eða loft, en hentaði fullkomlega í prjónana. Ég seldi þessa prjóna fyrir hann í búðinni minni og þeir gripu augu margra, ekki síður sem skreyting á veggnum.
Það var alveg sama hvað ég bað Svein að búa til fyrir mig sem gæti nýst í Uppspuna, hann sagði alltaf já, hikaði síðan smá stund og spurði hvernig hluturinn ætti að líta út og svo var hann þotinn til að byrja á verkinu. Málið var nefnilega að honum þótti gott að fá pantanir. Þá var verkefni að hafa og að búa til eitthvað sem hann vissi að væri til gagns gaf honum meiri ánægju en að búa bara eitthvað til. Hann bjó til kassa og körfur, vasa og diska fyrir ólíkar vörur sem fóru síðan í hillurnar.
Og svo bjó hann til skálar. Alls konar skálar. Svo fallegar og svo margar og ólíkar. Stundum límdi hann saman viðartegundir í ólíkum litum og gerði þannig skálar sem voru tvílitar. Það eru svo margir sem hafa eignast fallega skál sem Sveinn bjó til og margir hafa sagt mér að þessar skálar séu þeim mikils virði og þeir hugsi hlylega til Sveins þegar þeir horfa á þær.Hann bjó líka til bolla úr heilum greinum
heilum trjábol eða úr rekaviðardrumbi við rennismíðina. Flestir þessir hlutir eru eins og listaverk, þó svo að hann sjálfur hafi sagt að hann væri eingöngu að eyðileggja spýtur.
Þann 28. janúar 2025, sem er einnig fæðingardagur Sveins, mun jarðarför hans fara fram.
Til heiðurs og af virðingu við minningu Sveins, búskap hans og uppbyggingu á jörðinni sem við Tyrfingur tókum við árið 2011, ætlum við að hafa Uppspuna lokaðan jarðarfarardaginn 28. janúar 2025.
Ef þú lest þetta, taktu þá örstutta stund til að skoða myndirnar sem fylgja þessum pósti. Þær sýna örfá verka Sveins. Það má alveg dást að þessum verkum, en þar er einnig mynd sem sýnir útsýnið úr bílskúrshurðinni á hlaðinu hans og opnumyndin sýnir Svein á þeim stað sem hann unni mest, hálendi Íslands.
Takk elsku Sveinn fyrir að vera eins og þú varst. Það gerði okkur að betri einstaklingum að fá að kynnast þér.