Skip to content

Hulduband – kynning

Band spunnið af rangæskum kindum

Huldubandið er nefnt í höfuðið á huldukonunni. Það er spunnið úr ull af rangæskum kindum. Kindum frá okkur í Lækjartúni og af kindum nágranna okkar. Sauðalitirnir eru eins og kindin gefur hverju sinni og ekki er öruggt að fá nákvæmlega sama tóninn í ólíkum lotum. Það getur verið munur á kindum og einnig getur verið munur á kindum á milli ára. Ullin breytist eftir því sem ærin eldist og einnig hefur umhverfið áhrif eins og veðurfar og fóðrun. Þannig að ef það á að prjóna stóra flík úr garninu er betra að ná sér í nóg af garni í verkið strax í upphafi.

Tvinnað garn

Þegar garnið hefur verið spunnið er það tvinnað og við reynum að láta 50 grömm ná 100 metrum. Þar sem bæði ull og vélar geta snúið upp á sig ef þeim sýnist svo, næst þetta ekki alltaf 100%, en er mjög nærri og ekki á að sjást munur á prjóni úr huldubandi þó það sé örlítill þyngdarmunur á hespunum. Við seljum hespurnar eftir þyngd og má finna verðlistann hér.

Náttúrulegir litir og litað með jurtum

Flestar garnhespurnar eru settar í hillurnar eins og þær koma úr spunavélunum, en einstöku sinnum grípur okkur litaþörf og þá litum við nokkrar í bláum, grænum, gulum og rauðum tónum. Stundum litum við hvítt garn og stundum litum við grátt garn. Grátt garn gefur aðra hreyfingu í litinn en hvítt og getur verið mjög fallegt saman í munstraðar flíkur.
Við notum jurtir úr nærumhverfinu til að lita með á sumrin, en á veturna handlitum við með dufti.

Hentar vel í peysur, sokka, húfur og vettlinga

Hulduband er best að prjóna með prjónum nr. 3,5 til 4,5 en þó fer það eftir því hversu þétt prjónarinn prjónar. Þannig hefur fólk prjónað úr þessu garni á prjóna nr 5,0 og það hefur gefist vel. Þá er flíkin léttari í sér. Hulduband hentar einkar vel í peysur. Þær eru hlýjar, mjúkar og notalegar bæði inni og úti. Einnig má prjóna úr því sokka, húfur og vettlinga og einhverjir hafa prjónað úr því sjöl. Hulduband stingur ekki mikið og í einstaka tilfellum nánast ekki neitt. Það er slitsterkt og yndislega mjúkt. Eins og öll hrein ull, þá vill garnið hnökra við notkun og núning en hættir því eftir ákveðinn tíma. Gott er að reita hnökrið af eða kemba með til þess gerðum kambi til að losa af flíkinni.

EnglishIcelandUSA
error: Content is protected !!