Skip to content

Kindurnar okkar

Hrúturinn Dregill var blíður og ljúfur

Hrúturinn Dregill er einn þeirra. Hann er reyndar fallinn núna, en þegar hann var á lífi var hann alltaf til í knús og klapp, klór á bak við eyrun eða smá bygghrúgu úr lófa. Aldrei setti hann í okkur hausinn eða heimtaði meira klapp með frekju. Bara blíður og ljúfur. Dætur hans eru margar með þennan rólyndiseiginleika.

Bríet fer ótroðnar slóðir

Bríet er nefnd í höfuðið á kjarnakonunni Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Hún er eins og nafna hennar, ákveðin, útsjónarsöm og fer ótroðnar slóðir. Hún er fædd 2015 og því ekki gömul, en ákaflega frjósöm og hugsar vel um lömbin sín. Hún er ekki kelirófa, en leggur traust sitt á fjárhirðinn ef eitthvað er átt við hana.

Snerpa er drottningin

Þessar á myndinni til hægri eru magnaðar. Þær eru 6 mánaða þegar myndin er tekin. Sú lengst til vinstri var ofsalega stygg,- ef einhver kom inn í stíu, þá stökk hún upp á hinar kindurnar og hljóp ofan á þeim. Því miður lifði hún ekki nema eitt ár. Hún hét Hnáta. Sú lengst til hægri er búin að eiga tvö lömb með feldhrút og skilaði þeim hrokkinhærðum og fallegum. Hún heitir Gná. Þessi í miðjunni er drottningin. Hún náðist á skemmtilega mynd sem sett var á póstkort og er svo sannarlega virðulegur fulltrúi búsins. Frábær móðir, frjósöm og mjólkar vel. Fer fyrir hópnum í leit að góðum högum og er róleg og virðuleg í húsi. Hún heitir Snerpa.

Framtíð til fyrirmyndar

Framtíð. Mynd sem Hulda Brynjólfsdóttir málaði.

Þegar Hulda og Tyrfingur byrjuðu búskap var kind á bænum númer 7002, fædd 2007. Hún hét ekki neitt, en um haustið var hún með tvær fallegar dætur sem báðar voru settar á til lífs. Huldu finnst að kindur þurfi að hafa nafn og því var sest við að gefa öllum á bænum eitthvert heiti. Þessi kind var nefnd Framtíð af því hún var með svo falleg lömb og því líkleg til að bæta framtíðarbúskapinn. Dætur hennar voru nefndar Sól og Fiðla. Framtíð var mögnuð kind. Hún átti alltaf tvö eða þrjú lömb sem skiluðu sér feikna væn af fjalli og oft sett á til lífs. Dætur hennar eru líka magnaðar og Sól dóttir hennar varð 9 ára gömul og átti þá 7 dætur á lífi. Framtíð var ekki mjög spök og vildi lítið tala við manninn, en róleg á húsi og það fór ekki mikið fyrir henni. Hún var ekki að monta sig yfir því að vera besta kindin í húsinu. Þegar hún var felld, ákvað Hulda að mála mynd af henni á fjárhúsvegginn til minningar og til fyrirmyndar fyrir hinar kindurnar. Svo var þeim reglulega sagt að svona eigi góðar kindur að vera,- Engin pressa. Einn hrútur var settur á undan henni og sonur hans fékk Blup verðlaun haustið 2017, en þau eru gefin fyrir hæstu blupeinkunn á hverju sauðfjárræktarsvæði (í þessu tilfelli Rangárvallasýslu). Sá hét Stimpill. Flestar kindurnar í Lækjartúni eru á einn eða annan hátt komnar út af Framtíð.

Efasemd í uppáhaldi

Ein af uppáhaldskindunum mínum er Efasemd. Hún var sett á til lífs eftir miklar vangaveltur, því mamma hennar var ekki sérstök afurðaær.
En þvílík kind. Hún hefur svo mikinn karakter, auk þess að vera betri en mamma hennar á allan hátt.
Í myndbandinu er hún að sníkja betra hey hjá mér og fær klapp fyrir að vera til.

video

 

 

EnglishIcelandUSA
error: Content is protected !!