Skip to content

Kynning – dvergaband

Dvergabandið er spunnið úr ull af Rangæskum kindum

Dvergabandið er til heiðurs dvergunum sem búa í stokkum og steinum. Þeir eru stundum stuttir og digrir, en alltaf brosmildir, hlýlegir og kátir. Þannig er dvergabandið líka. Dálítið digurt, en ákaflega hlýlegt. Þeir sem klæðast því, hljóta því að verða kátir. Dvergabandið er spunnið úr ull af Rangæskum kindum og í það er valin ull af kostgæfni.

Þrinnað garn sem gefur hlýjar og mjúkar peysur

Garnið er þriggja þráða, eða þrinnað eins og það er kallað. 100 grömm eru 100 metrar og því er það nokkuð þykkt. Það hentar ákaflega vel í þykkar peysur sem eiga að halda hita á fólki sem er mikið úti við, smalamennskur á haustin, útivist á vetrum, eða bara við hvaða tækifæri sem er. Þær eru hlýjar, mjúkar og þéttar í sér, en geta líka vigtað nokkuð. Þannig þarf um 800 grömm af garninu í peysu í Large ef prjónað er á prjóna nr 5 – 6. Það má gera þær léttari með því að prjóna á stærri prjóna. Ef óskað er eftir hlýrri húfu, er dvergabandið góður kostur. Hún verður þéttari í sér og mjög hlý úr því garni.

Dvergasokkar er ekki blandað með plastþráðum heldur einungis ull og samt svo slitsterkt

Út frá dvergabandinu höfum við þróað níðsterkt garn í sama grófleika sem við köllum dvergasokka. Það er ætlað í sokka, eins og nafnið bendir til. Ullin sem við notum í það fer ekki í gegnum hárskiljuna. Hún þarf því að vera vel hrein þegar við vinnum hana, því hárskiljan tekur ekki bara burt tog, heldur líka gras og fræ. Dvergasokkarnir eru gríðarlega slitsterkir og endast mun lengur en við höfum áður kynnst, enda er varla hægt að slíta garnið þegar það er komið í endanlegt form.
Bæði dvergabandið og dvergasokkarnir eru 100% íslensk ull og ekki blönduð með plastþráðum eins og margt annað sokkagarn. Einungis ull og samt svona slitsterkt.

EnglishIcelandUSA
error: Content is protected !!