Karfa

Garnið okkar

Allt okkar garn er 100% íslensk ull. Sauðalitirnir eru náttúrulegir og hvorki litaðir né blandaðir á neinn hátt. Það getur því verið mjög misjafnt hvernig liturinn er á milli lotunúmera, þar sem hver kind sem gefur ullina í verkefnið er ólík þeirri næstu og getur þar að auki gefið ólíka ull milli ára.

Við notum milda, náttúruvæna sápu við vinnsluna og förum mjúklega með hráefnið, sýnum því virðingu og meðhöndlum af varfærni, en tökum umsvifalaust frá það sem okkur finnst ekki nógu gott fyrir garnið okkar.

Ullin kemur að mestu leyti af okkar eigin kindum sem við ræktum markvisst með það fyrir augum að bæta gæði ullarinnar og eiga til alla þá liti sem hægt er að fá í íslensku sauðfé. Það má því segja að vinnslan á garninu hefjist þegar við pörum saman einstaklinga til að rækta áfram næstu kynslóð.

Við kappkostum að fullnýta hvert og eitt reyfi og nýta það sem ekki fer í garn í önnur verkefni, enda er umhverfisvernd og samstarf við náttúruna eitt af okkar æðstu markmiðum.

Við notum einungis úrvals ull í garnið okkar, en það getur komið jafnt af lömbum sem fullorðnum einstaklingum. Í rauninni er það ekki alltaf aldur kindarinnar sem ákvarðar gæði hráefnisins, þar spila margir þættir inn í, til dæmis fóðrun, veðurfar og erfðamengi gripsins. En líka meðhöndlun og vinnsluaðferð. Þar sem þvotturinn er mildur er mikið af lanolíni enn til staðar í garninu sem skolast að einhverju leyti burt þegar tilbúin flík er þvegin, en eiginleikar ullarinnar að halda manni þurrum og heitum halda sér samt sem áður.
 
Til að geta boðið upp á aðra liti en sauðaliti höfum við handlitað garnið okkar ýmist með jurtum eða dufti sem við notum í mjög litlu magni og takmörkum eða forðumst þannig
notkun allra kemískra efna eins og hægt er.