Skip to content

Tröllaband – kynning

Tröllaband er eins og dreadlokkar

Tröllabandið heitir í höfuðið á tröllunum. Það er þráðspunnið sem kallað er, en þá er ullin spunnin utan um þráð. Við notum einband sem við höfum áður spunnið á hefðbundinn hátt, til að nota í þráðspunann. Tröllabandið er svolítið eins og dreadlokkar (dreadlocks) í útliti og gerum við oftast 60 metra rúllur sem vega á bilinu 250 til 450 grömm.

Tog er notað í Tröllaband

Úr einni slíkri rúllu má til dæmis ná í tvo púða eða eina og hálfa heklaða körfu en tvær prjónaðar, eða þó nokkra þæfða hluti. Algengt er að gera teppi, mottur eða púða úr svona bandi, en í teppi þarf fleiri og fer það eftir stærð fyrirhugaðs teppis hve mikið þarf að brúka.
Í tröllabandið notum við að megninu til tog. Það eru lengri hárin í ullinni á íslensku kindunum. Saman við er eitthvað af þeli, en mun meira af toginu.

Tröllaprjónar fyrir tröllaband

Sveinn Tyrfingsson hefur í samstarfi við okkur hannað tröllaprjóna fyrir tröllabandið. Það eru hringprjónar úr tré sem eru frá 10 mm upp í 25 mm stórir og er mjög þægilegt að prjóna tröllabandið á þá. Það er líka skemmtilegt að nota bara fingurna þegar “prjónað” er úr garninu.

Breytilegir litir og hömruð áferð

Þegar við búum til tröllaband, erum við oft að fást við hráefni sem hefur safnast saman í hinum vélunum. Litirnir eru því oft breytilegir í hverri rúllu. Við reynum að láta sömu tóna í hverja fyrir sig, þannig að gráir og svartir tónar séu saman, en þeir brúnu eru ekki alltaf með. Stöku sinnum gerum við einlitar rúllur og svo höfum við töfraáferðina sem Tyrfingur Sveinsson hannaði á sínum tíma. Þá verður garnið eins og hamrað og þegar búið er að prjóna úr því, minnir það afskaplega mikið á steinana sem tröllin voru sögð hafa breyst í hér áður fyrr þegar sólin skein á þau.

EnglishIcelandUSA
error: Content is protected !!