Skip to content

Um okkur

Smáspunaverksmiðjan Uppspuni er staðsett að Lækjartúni, 851 Hellu. Í blómlegri sunnlenskri sveit, með Heklu, Eyjafjallajökul, Tindfjöll og fleiri gersemar í fjallahringnum.
Við fengum vélar frá Kanada sem voru gangsettar að morgni þann 1. júlí 2017.
Æfingar, mistök og vel heppnaðar tilraunir fóru fram, þar til ánægjan fór að aukast með framleiðsluna og vængirnir voru breiddir út til flugs.

Laugardaginn 17. mars og sunnudaginn 18. mars 2018 var formleg opnunarhátíð smáspunaverksmiðjunnar og búðarinnar. Síðan þá hefur vinna í verksmiðjunni verið stöðug og framleiðsla á garni fjölbreytt og sífellt verið að betrumbæta og útfæra garnið, auka við ullarþjónustuna og efla markaðsetningu og vörusölu á netinu og í búðinni sem hefur stækkað og eflst.

 

Tyrfingur og Hulda í réttum.

Eigendur smáspunaverksmiðjunnar eru Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson. Þau eru bændur á Suðurlandi  með sauðfé og holdanautgripi. Á veturna eru um 280 ær á fóðrum en á vorin þrefaldast fjöldinn þegar lömbin bætast við.

Féð er í heimahögum fram eftir sumri en er keyrt inn á Búðarháls í byrjun júlí. Þaðan er það sótt í byrjun september. Í nóvember er féð tekið inn og þá er það rúið um leið og það kemur á hús. Þannig fæst tandurhrein og falleg ull í bestu mögulegu gæðum. Þessi ull er spunnin í einstaklega mjúkt band sem erfitt er að finna annarsstaðar.

Á búinu eru líka holdanautgripir. Þar eru 25 kýr sem eru blanda af Galloway, Aberdeen Angus og Íslendingum. Þær eignast kálfa á hverju vori og hafa þá með sér í haganum fram í nóvember en þá eru kálfarnir teknir á hús og kýrnar fá pásu frá mjólkurframleiðslu yfir köldustu mánuðina.

Vélaverkstæði er rekið á búinu, þar sem gert er við vélar og tæki sem bila, en einnig smíðað allt mögulegt úr járni. Til dæmis stigahandrið og innréttingar í gripahús. Allt eftir óskum þeirra sem biðja um slíka þjónustu.

Þann 21. nóvember 2018 tókum við stolt við verðlaunum fyrir framúrskarandi verkefni frá Icelandic Lamb.

Samstarf við Icelandic Lamb hófst um leið og formlega opnunin átti sér stað. Icelandic Lamb setur gæðastimpil á þær vörur sem eru sannarlega af íslensku sauðfé og sá gæðastimpill bættist þannig á vörurnar sem búnar eru til í Uppspuna, enda eingöngu íslensk ull í garninu. Það var heiður að fá viðurkenningu fyrir framúrskarandi verkefni og fá þannig staðfestingu á að Uppspuni er eingöngu með gæðavöru í búðinni.

Kindurnar okkar

Á veturna eru 280 kindur á fóðrum, en á vorin fjölgar í hópnum þegar lömbin bætast við og er fjöldinn þá nálægt 700. Fullorðnar, gemsar og hrútar. Allt okkar fé er kollótt nema ein sem er ferhyrnd. Allar kindurnar okkar og hrútarnir eru nefndar. Okkar markmið er að vera með fé sem skilar góðum afurðum, en eru fyrst og fremst frekar rólegar - án þess að vera frekar. Þær þurfa að vera góðar mæður, heilsuhraustar og vel mjólkandi með fallega og mikla ull í hreinum litum. Eins og aðrar skepnur eru kindurnar jafnmisjafnar og þær eru margar og sumar verða miklar uppáhaldsskepnur út af misjöfnum ástæðum. Meira...

EnglishIcelandUSA
error: Content is protected !!